Félagsfundur Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) samþykkti í kvöld að sættast á niðurstöður í viðræðum FÍA og Icelandair sem komist var á skömmu fyrir fundinn. Icelandair féllst á að draga til baka uppsagnir 11 fastráðinna flugmanna.
Kjarasamningur kveður á um að flugmenn Flugleiða (nú Icelandair) hafi forgang að flugverkefnum á vegum félagsins á hverjum tíma bæði innanlands sem utan. Jóhannes Bjarni Guðmundsson, formaður FÍA segir að vissulega sé um gamalt ákvæði að ræða en það sé enn í fullu gildi.
„Sæst var á að taka upp viðræður um forgangsréttarákvæðið og að leita leiða sem skapi áframhaldandi sókn í erlendri leiguflugsstarfsemi Icelandair með flugmönnum Icelandair,“ sagði Jóhannes Bjarni.
Um hundrað manns mættu á fundinn og voru fundarmenn þokkalega sáttir við niðurstöðuna.