Gripnir með stolin dekk

Lögreglunni á Selfossi var tilkynnt um grunsamlegar mannaferðir við Bílasöluna Heklu í nótt. Fóru lögreglumenn á staðinn og sáu að búið var að taka dekk og felgur undan einum fólksbíl. Stuttu síðar stöðvaði löreglan á höfuðborgarsvæðinu för tveggja manna sem voru gripnir ránsfenginn. Voru þeir fluttir á Selfoss og eru þar nú í yfirheyrslum.

Lögreglan fékk tilkynningu um að við bílasölu Heklu í Hrísmýri á Selfossi væru menn að sniglast í kringum bifreið. Þegar lögreglumenn komu á staðinn stuttu síðar sáu þeir Lexusbíl á kviðnum þar sem öll hjól höfðu verið tekin undan honum Enginn var sjáanlegur í nágrenninu.

Lögreglu á höfuðborgarsvæðinu var gert viðvart og gefin lýsing á bíl, sem sást á ferð við bílasöluna. Ekki leið á löngu þar til lögreglumenn þar stöðvuðu bíl, sem lýsingin átti við. Í bílnum voru tveir menn og hjólin undan Lexusbifreiðinni einnig.

Mennirnir voru handteknir. Í framhaldi voru þrír aðrir handteknir sem taldir eru viðriðnir málið. Einn þeirra er eigandi sams konar Lexusbíls og þess, sem hjólin voru tekin undan á bílasölunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert