Hraðakstur þrátt fyrir helmingi hærri sektir

Hraðakstur á Suðurlandi hélt áfram þrátt fyrir að sektir hafi hækkað um helming, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Hvolsvelli. Í vikunni sem leið voru 74 stöðvaðir fyrir of hraðan akstur í umdæminu og sá sem hraðast ók var á 173 km hraða og var sá sviptur ökuleyfi á staðnum. Hann á von á 160.000 króna sekt og einnig er möguleiki á að bifreiðin verði tekin af viðkomandi.

Í vikunni voru 6 ökumenn stöðvaðir og eru grunaðir um ölvun við akstur. Þrjú umferðaróhöpp urðu og ein bílvelta þar sem nýr Landcruser bílaleigubíll valt við Sólheimajökul. Farþegi bifreiðarinnar hlaut lítilsháttar meiðsl en ökumaður slapp án meiðsla. Þau voru bæði í bílbeltum.

Að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli er algengt að erlendir ferðamenn aki of hratt og meirihluti þeirra sem eru stöðvaðir þess dagana eru útlendingar. Ferðamennirnir vita hver hámarkshraðinn er, en eru hissa á því hversu háar sektirnar eru. Lögreglan er í samstarfi við bílaleigur landsins að koma upplýsingum um hraðatakmarkanir og sektir áleiðis til erlendra ökumanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert