Helgin var erilsöm hjá lögreglunni á Akranesi. Mikil ölvun, óspektir og fíkniefni voru einkennandi – en að mestu bundin við tjaldsvæði í jaðri bæjarins – og það aukna álag sem leggst á lögreglu og starfsmenn slysavarðstofu er árvisst þá helgi sem fjölskylduhátíðin Írskir dagar er haldin í bænum. Sú hátíð fór hins vegar að mestu friðsamlega fram.
Talið er að um sex þúsund manns hafi lagt leið sína til Akraness til að fagna Írskum dögum og er það tvöföldun frá fyrra ári. Í kjölfar hátíðarinnar í fyrra var mikið rætt um unglingadrykkju sem hátíðinni fylgdi og þrátt fyrir stóraukið eftirlit í ár var það sama upp á teningnum.
Þegar mest var voru um tvö þúsund manns á tjaldsvæðinu við Kalmannsvík, að miklum hluta á tvítugsaldri, og að sögn lögreglu þurfti mikið til svo hægt væri að halda uppi lögum og reglu. "Við gátum haldið þessu stórslysalausu með stanslausum afskiptum og tugir manna þurftu að hafa viðveru í fangageymslum," segir varðstjóri hjá lögreglunni.
Á þriðja tug fíkniefnamála
Nokkuð var um minniháttar líkamsárásir og m.a. þurfti öryggisvörður við störf á tjaldsvæðinu að leita aðhlynningar á sjúkrahúsi bæjarins eftir átök. Að sögn lögreglu stóðu gæslumenn oft í miklu stappi og á stundum sauð upp úr. Í gærkvöldi hafði þó engin kæra borist. Álagið á starfsmönnum slysadeildar sjúkrahússins var einnig mikið en þangað þurftu fjölmargir að leita vegna minni áverka. Á þriðja tug fíkniefnamála kom einnig upp. Um var að ræða amfetamín, hass, kókaín og e-töflur, að meiri hluta í neysluskömmtum en upp komu tilvik þar sem einstaklingar voru með um og yfir tíu grömm af fíkniefnum á sér. Jafnframt voru níu ökumenn stöðvaðir fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna og þrír fyrir ölvun undir stýri. Þessi mikli fjöldi fíkniefnamála er bein afleiðing öflugs eftirlits. Fíkniefnahundar frá höfuðborgarsvæðinu og Borgarnesi voru notaðir og skiptust þrír hundar á vöktum. Að sögn lögreglu veittu hundarnir ómælda aðstoð.