Andstæðingar stóriðju- og virkjanaframkvæmda hyggja á mótmælaaðgerðir á suðvesturhorni landsins á næstu dögum og vikum. Lögregluyfirvöld á Austurlandi segja hins vegar engar vísbendingar um fyrirhuguð mótmæli á virkjunarsvæðunum þar.
Sigurður Harðarson, hjá umhverfissamtökunum Saving Iceland, segir að skipuleggjendur ráðstefnu, sem fram fór í Ölfusi um helgina á vegum samtakanna, séu nú að ljúka frágangi eftir ráðstefnuna en að því loknu fari þeir að skipuleggja hvar og með hvaða hætti mótmælaaðgerðir verða. Hann sagði ljóst að fyrirhugaðar aðgerðir verði við Hellisheiðarvirkjun og á Hengilssvæðinu, í Hvalfirði, í Þorlákshöfn og í Helguvík og við Þjórsá. Sigurður sagði lögreglubíla hafa verið á sveimi í kringum ráðstefnusvæðið en líklega eigi það sér eðlilegar skýringar.
Allir velkomnir
Helgi Pétursson, yfirmaður almannatentgsla hjá Orkuveitu Reykjavíkur, sagði í samtali við mbl.is að innan fyrirtækisins hafi hugsanlegar aðgerðir mótmælenda og ráðstafanir gegn þeim verið ræddar. Hann sagði þetta vera í fyrsta sinn sem umræða af þessum toga fari fram innan Orkuveitunnar.
„En við höfum ekki enn gripið til neinna ráðstafanna og bjóðum alla ferðamenn velkomna til okkar, hvort sem þeir eru erlendir eða innlendir” sagði Helgi.
Rólegt fyrir austan
Óskar Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá sýslumannsembættinu á Seyðisfirði, segir allt með kyrrum kjörum fyrir austan. Hann segir engar vísbendingar hafi borist lögreglu um yfirvofandi mótmælaaðgerðir og lögregluyfirvöld hafi því ekki gert neinar ráðstafanir. Lögregla ræddi við fjóra karlmenn sem komu með ferjunni Norrænu til Seyðisfjarðar fyrir skömmu. Þeir voru taldir hyggja á mótmælaaðgerðir gegn stóriðju og virkjanaframkvæmdum fyrir austan.
Sigurður Arnalds, hjá Landsvirkjun, segir virkjanasvæðið við Kárahnjúka nú lokað almenningi, ólíkt síðasta sumri, enda starfsemi hafin í stöðvarhúsinu. „Við settum upp hlið síðasta sumar sem er auðvelt að manna, ef eitthvað kemur upp. Svo hafa öryggisverðir verið að störfum við Fljótsdalsvirkjun frá því í vetur og öryggisverðir verið starfandi við Kárahnjúkasvæðið, aðallega til að gæta upp á umferð ferðamanna. Annars er meginregla fyrirtækisins sú að treysta lögregluyfirvöldum fyrir því að halda uppi lögum og reglu,” segir Sigurður.