Skipstjóra- og stýrimannafélag Verðandi samþykkti ályktun á stjórnarfundi félagsins í dag, þar sem félagið mótmælir harðlega ásökunum um kvótasvindl sem birtust í Morgunblaðinu þann 4. júlí síðastliðinn.
Verðandi hvetur í ályktuninni alla þá sem tjáðu sig við Morgunblaðið til þess að færa fram sannanir á máli sínu.
„Þögn um glæpi á ekki að líðast og þeir sem láta ekki vita af þeim, taka þátt í glæpnum sjálfum. Stjórn Verðanda hefur því ákveðið að hjálpa þeim mönnum, með einhverjum hætti, sem hafa sannanir fyrir kvótasvindli en þora ekki að koma fram af ótta við að yfirvöld ákæri þá,“ segir í ályktun Verðandi.
Að lokum hvetur félagið fjölmiðlamenn til að koma þiggja boð Útvegsbændafélags Vestmannaeyja um að koma og fylgjast með hvernig staðið er að útflutningi á ferskum fiski.