Lögreglan á Akranesi segist hafa nóg að gera eftir viðburðaríka helgi í bænum. Á tjaldstæði bæjarins var mikil ölvun og mikið um ryskingar og læti um helgina. Lögregla hafði því stanslausa viðveru á tjaldstæðinu og segir hún mikinn viðbúnað ástæðu þess hversu mörg mál komust upp.
Mikil eftirvinnsla fylgir málum helgarinnar. Lögreglan á Akranesi gengur frá fíkniefnamálum, ölvunar- og fíkniefnaakstursmálum, líkamsárásarkærum og skemmdarverkamálum. Senda þarf fíkniefni og blóðsýni á rannsóknarstofur í Reykjavík og taka þarf skýrslur af þeim sem urðu fyrir líkamsárás en voru ölvaðir, þar sem lögregla tekur ekki atvikaskýrslur af ölvuðu fólki. Þá þurfa allir pappírar að vera skotheldir, þar sem flest málin fara fyrir dóm.
Frumkvæði lögreglunnar varð til þess að svo mörg mál komust upp og unnu nokkrar deildir og umdæmi lögreglunnar saman að verkefnum helgarinnar, að sögn lögreglunnar á Akranesi.