Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir að hann sé fylgjandi olíuhreinsistöð á Vestfjörðum að uppfylltum skilyrðum. Halldór fór ásamt fleiri vestfirskum sveitarstjórnamönnum í kynnisferð til Rotterdam og Leipzig og skoðaði olíuhreinsistöðvar þar.
„Ef það eru fjárfestar sem vilja reisa hér olíuhreinsistöð og hún stenst allar þær kröfur sem við gerum til umhverfis- og öryggismála þá verður þetta gert. Það skiptir ekki máli hvort hún verði þá reist í Ísafjarðarbæ eða Vesturbyggð. Ég hef engan áhuga á að fara í reiptog um það því störfin munu verða til á öllu svæðinu. Það er alveg á hreinu að ef úr verður þá kallar það á gríðarlegt átak í samgöngumálum,“ segir Halldór við bb.is.
Um ferð sveitarstjórnarmanna segir Halldór: „Fyrir mig opnaði þetta sýn. Ég hafði ekki hugmynd hverju ég átti von á. Nú hef ég séð hvernig þessar verksmiðjur líta út og hvernig byggðin er nálægt þeim, bæði í Rotterdam og Leipzig. Ég fór út með því hugarfari að hugsanlega kæmi ég til baka og segði nei takk. Þetta er ekki eitthvað sem við viljum. Ég hélt að þetta væri sóðalegt og maður sæi olíu einhvers staðar. Þetta minnir meira á orkuverið í Svartsengi."
Hann segir að verði slík stöð að veruleika á Vestfjörðum sé gríðarlegur vöxtur framundan en búast megi við að 500 manns vinni þar og stór hluti þess starfsfólks yrði tækni- og verkfræðimenntað.
Halldór viðurkennir að um stefnubreytingu sé að ræða. „Á fjórðungsþingi Fjórðungssambands Vestfirðinga var samþykkt að vinna að stefnumótun sem byggi á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Í tengslum við það hefur verið talað um stóriðjulausa Vestfirði. Hvað sem orðabókum líður þá verða Vestfirðir ekki stóriðjulausir verði hér olíuhreinsistöð. Í mínum huga er engin spurning að olíuhreinsistöð er stóriðja.“