Bráðaaðgerðirnar felast í því að setja strax á laggirnar þrjár stöður blindrakennara svo hægt sé að sinna ráðgjöf við blinda og sjónskerta nemendur og kennara og starfslið skóla þeirra. Einnig verða þrjár nýjar stöður umferlis- og ADL þjálfa settar á fót undir starfsemi Sjónstöðvar Íslands. Störfin verða auglýst á næstu dögum og verða sex einstaklingar sendir erlendis strax í september til að afla sér sérþekkingar.
Ein stór og sterk þjónustustofnun fyrir blinda og sjónskerta ?
Aðspurð um skýringu á skorti á fagmenntuðu starfsfólki til að sinna kennslu blindra og sjónskertra segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, að ekki hafi nógu margir farið í nám sem tengist blindrakennslu og atferlisþjálfun blindra. Með aðgerðum núna vilji stjórnvöld hvetja fólk til þess að fara í þessháttar nám. „En það er líka engin launung að það er hægt að sameina kraftana betur hjá þeim aðilum sem starfa að þjónustu við blinda og sjónskerta. Því fagna ég því að aðilar séu nú tilbúnir til að vinna betur sameiginlega að þjónustu við þennan hóp.” Ráðherra segist gera ráð fyrir því að þróunin verði sú að ein stór og sterk stofnun sem þjónusti blinda og sjónskerta verði komið á fót en þær fyrirætlanir verði kynntar með haustinu.
Menntað fólk í faginu er forsenda góðrar þjónustu við blinda
Halldór Sævar Guðbergsson, formaður Blindrafélagsins segist gleðjast mjög yfir ákvörðun ríkisstjórnarinnar. „Forsendan fyrir öflugri og góðri þjónustu við blinda og sjónskerta í landinu er að mennta fólk í faginu, því lýsi ég yfir mikilli ánægju með viðbrögðum ríkisstjórnarinnar. Við í Blindrafélaginu horfum núna til þess að byggja upp þjónustu við blinda og vonumst til að við séum að fara inn í uppbyggingartímabil í málefnum okkar.”
Gert er ráð fyrir að kostnaður við bráðaaðgerðirnar núna verði um 40 milljónir króna sem er stærstur hluti heildarkostnaðarins sem áætlaður er í þjónustuúrbætur við blinda og sjónskerta.