Dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir nauðgun

Héraðsdómur Austurlands hefur dæmt karlmann í 18 mánaða fangelsi fyrir kynferðisbrot með því að hafa samræði við konu sem var ófær um að sporna við verknaði hans vegna ölvunar og svefndrunga. Maðurinn var einnig dæmdur til að greiða konunni 833 þúsund krónur í bætur auk málskostnaðar, sem nam tæpri milljón króna.

Konan leitaði til lögreglu á Fáskrúðsfirði sl. haust og sagðist hafa vaknað skömmu áður í húsi í bænum þar sem tveir naktir karlmenni hefðu verið yfir henni og hún fundið fyrir einhverju inni í sér. Hún hefði öskrað og náð taki á einhverjum nálægum hlut, sem hún hefði kastað í annan manninn og í framhaldinu heyrt einhver brothljóð.

Konan sagðist ekkert hafa þekkt til þarna og hvorugan manninn þekkt eða séð áður. Þá sagðist konan ekki vita hvernig hún hefði komið inn í húsið en hún hefði verið að skemmta sér um kvöldið og nóttina, sem hefði endað með því að hún hefði rifist við manninn sinn og síðan orðið viðskila við hann og myndi síðan ekkert frekar.

Lögreglan handtók í kjölfarið tvo karlmenn. Annar þeirra, sem var eins og konan gestkomandi í húsinu, var síðar ákærður fyrir kynferðisbrot. Hann neitaði sök, og sagði að þau konan hefðu ekki haft nein kynferðisleg samskipti. Hinn maðurinn, sem var húsráðandi, bar á sama veg í yfirheyrslum hjá lögreglu en fyrir dómi, þegar ljóst var að hann var ekki ákærður fyrir aðild að brotinu, breytti hann framburði sínum og sagðist hafa séð hinn manninn nakinn hjá konunni. Hann sagðist hins vegar ekki muna til þess að hann sjálfur hefði afklæðst.

Dómurinn segir, að með vísan til afar trúverðugs framburðar konunnar um atburði þegar hún vaknaði, áverka sem hún bar á kynfærum og endaþarmi og framburðar læknis um að þeir geti samrýmst harkalegum eða óundirbúnum samförum, framburðar vitnisins og framburðar annarra vitna um að konan hafi verið grátandi og í miklu andlegu uppnámi á eftir og með vísan til þeirra sálrænu einkenna sem hrjáð hafi konuna eftir atburðinn þyki í ljós leitt og hafið yfir skynsamlegan vafa að maðurinn hafi haft samræði við konuna.

Við ákvörðun miskabóta var litið til verknaðarins og þess hvaða áhrif hann hafi haft á líðan konunnar, sem hefur þurft að leita sér sérfræðiaðstoðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert