Fiskveiðiárið 2005-2006 nam vanreikningur á lönduðum línu- og handfæraafla um 2.300 tonnum, en netaafli var hins vegar ofreiknaður um 200 tonn. Orsökin er sú að frádráttur vegna slógs þegar fiski er landað óslægðum er of mikill þegar um er að ræða handfæra- og línuafla en of lítill þegar um er að ræða netaafla. Þetta veldur því að tölur um landaðan afla eru rangar, of lítill afli er dreginn frá aflamarki í krókaveiðum en of mikill í netaveiðum, segir í fréttatilkynningu Landsambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ).
LÍÚ segir jafnframt að miklar breytingar hafa orðið á magni þorskafla sem er landað óslægðum eftir veiðarfærum á umliðnum árum. Óslægður línuafli var 17.868 tonn fiskveiðárið 1991-1992 en var 34.378 tonnum á síðasta fiskveiðiári eða tæplega tvöfalt stærri. Á sama tímabili hefur óslægður handfæraafli einnig aukist úr 2.312 tonnum í 5.257 tonn. Óslægður netaafli hefur hins vegar minnkað umtalsvert eða úr 37.531 tonni í 6.623 tonn.
„Landssamband íslenskra útvegsmanna telur að rétt sé að allur þorskafli sé vigtaður eftir slægingu því að einungis þannig fæst rétt vigt. Óbreytt fyrirkomulag felur í sér mismunun,“ segir í fréttatilkynningu sambandsins.