Íbúar í nágrenni Njálsgötu 74 í Reykjavík sendu forsvarsmönnum velferðarsviðs Reykjavíkur tölvupóst í gær þar sem sem þeir óskuðu eftir frekari upplýsingum í 29 liðum vegna fyrirhugaðs heimilis fyrir heimilislausa karlmenn í virkri áfengis- og vímuefnanotkun að Njálsgötu 74. Var upplýsinganna óskað á grundvelli upplýsingalaga.
Í tilkynningu lýsa íbúarnir mikilli óánægju með það hvernig staðið var að undirbúningi og kynningu á heimilinu. Segjast þeir fyrst hafa frétt af málinu í gegnum fjölmiðla og haldinn hafi verið óupplýsandi kynningarfundur eftir að íbúar höfðu óskað þess sérstaklega. Heimilinu hafi verið valinn staður við hlið leikskóla, í fjölbýlishúsi og örstutt frá helstu verslunargötu borgarinnar.
Þá segja þeir að haldnir hafi verið tveir fundir með íbúum en eftir þann síðari hafi verið boðað til aukafundar í velferðarráði þann 4. júlí. Var á þeim aukafundi var samþykkt tillaga um rekstur heimilisins þrátt fyrir beiðni íbúa um að fá að kynna borgarstjóra sín sjónarmið áður en annað gerðist í málinu en samráðið hafði verið að hans tillögu.