Benedikt Hjartarson er að hefja sund yfir Ermarsund en hann gerir tilraun til þes að verða fyrstur Íslendinga til þess að synda yfir Ermarsund, en nafni hans Benedikt Lafleur þurfti frá að hverfa seint á sunnudagskvöld.
Benedikt Hjartarson varð fimmtugur í gær og sundið er meðal annars skipulagt til að fagna þeim áfanga. Hann hefur stundað sjósund lengi, en undirbúningur þessarar sundferðar hefur staðið í rúmt ár.
Flóð og fjara geta skilið milli feigs og ófeigs á Ermarsundinu, en mikilvægt er að hefja sundið þegar fjarar út við Dover snemma morguns og hitta líka á að synda með flóðinu seinnipart dags að ströndinni við Calais. Önnur hindrun sem gæti mætt Benedikt eru flákar af marglyttum sem halda til á Ermarsundi og brenna húð þeirra sem þær komast í snertingu við. Þær eru þó ekki mjög hættulegar, en geta skiljanlega valdið sundmönnum verulegum óþægindum.
Í samtali við Morgunblaðið í gær sögðu félagar Benedikts Hjartarsonar að hann hygðist leggja af stað um fimmleytið. Samkvæmt bjartsýnustu spám ætti hann að ná Frakklandsströnd um klukkan 17 í dag. Þrír aðstoðarmenn fylgja honum yfir sundið í bát, þeir Ingþór Bjarnason sálfræðingur, Stefán Karl Sævarsson verkfræðingur og Heimir Örn Sveinsson tölvunarfræðingur.
Samkvæmt reglum má Benedikt ekki snerta bátinn sem félagar hans verða í, svo þeir verða að slaka orkudrykkjum, ávaxtamauki og öðrum nauðsynjum til hans með veiðistöng.