Kristján L. Möller samgönguráðherra segir að með því að setja 6,5 milljarða í að flýta vegaframkvæmdum á 11 stöðum á landinu sé verið að flytja fjármagn til sem þegar er á samgönguáætlun. Þetta kom fram á blaðamannafundi í morgun. Tók Kristján sérstaklega fram að ekki sé verið að skera niður fé til samgöngumála og að ekki sé fyrirhugaður niðurskurður á framkvæmdum við Sundabraut.
Að sögn Kristján er þetta liður í aðgerðum til að mæta skerðingu á aflamarki á næsta fiskveiðiári og telur hann að þessar framkvæmdir hafi jákvæð áhrif á efnahagslífið. Að sögn Kristjáns var algjör samstaða innan ríkisstjórnarinnar um þessar aðgerðir í samgöngumálum nú.