Veggjalús hefur fundist í aðalbyggingunni að Brúarholti í Grímsnesi, þar sem Byrgið var áður til húsa. Hún fannst í svefnherbergjaálmu hússins og brenna þurfti öll húsgögn, teppi og fleira. Gert var ráð fyrir að meðferðarheimilið Götusmiðjan fengi afnot af húsinu en nú hefur orðið töf á því.
Í frétt Ríkisútvarpsins kom fram að brenna þurfti nær öll húsgögn að Brúarholti vegna veggjalúsa sem þar höfðu tekið sér bólfestu. Óvíst er hvort tekist hafi að útrýma henni endanlega en sérfræðingar segja hana eitt versta meindýr sem menn komast í tæri við.