Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hafði mikinn viðbúnað við Smáralind á tólfta tímanum í gærkvöldi í kjölfar þess að tilkynnt var um reyk í einum af kvikmyndasölum Smárabíós. Töluverðan reyk lagði um salinn og var Smáralindin rýmd – og þar með allir kvikmyndasalirnir.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var ekki um að ræða eiginlegan eldsvoða en reykurinn kom til þar sem spennir í neonljósi brann yfir. Búið var að aflétta viðbúnaði rétt fyrir miðnætti og fékk fólk þá að fara inn á ný.