SUS gagnrýnir afskipti sveitarfélaga af einkavæðingu HS

Samband ungra sjálfstæðismanna hefur sent frá sér ályktun þar sem átalin eru harðlega afskipti einstakra sveitarfélaga af sölu á eignarhlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja til einkaaðila. Kaup einkafyrirtækis á eignarhlut ríkisins voru grundvölluð á metnaðarfullum áætlunum um útrás íslenskrar sérþekkingar og hugvits.

Segir SUS, að með því að beita forkaupsrétti sínum til að koma í veg fyrir að eignarhlutur ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja færist til einkaaðila hafi viðkomandi sveitarfélög gengið gegn markmiði ríkisstjórnarinnar þar að lútandi.

Þá lýsir stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna yfir stuðningi við sjónarmið bæjarstjórans í Reykjanesbæ um að bærinn beiti forkaupsrétti sínum í þeim tilgangi að hinar upphaflegu áætlanir um aðkomu einkaaðila að Hitaveitu Suðurnesja nái fram að ganga. Afskipti annarra sveitarfélaga að málinu séu á gagnstæðum forsendum og harðlega átalin.

Í ályktuninni gagnrýnir SÚS einnig þá yfirlýsingu ungliðahreyfingar Samfylkingarinnar, að hvergi sé minnst á einkavæðingu orkufyrirtækja í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Þar segi orðrétt: „Tímabært er að leysa úr læðingi krafta einkaframtaksins svo að íslensk sérþekking og hugvit fái notið sín til fulls í útrás orkufyrirtækja." Sala ríkisins á eignarhlut sínum í Hitaveitu Suðurnesja hafi verið og sé í fullu samræmi við þetta markmið ríkisstjórnarinnar. Fullyrðingar ungliða í Samfylkingunni um annað séu óskiljanlegar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert