Ungir jafnaðarmenn, ungliðahreyfing Samfylkingarinnar, segist í yfirlýsingu undrast yfirlýsingar forystumanna Geysis Green Energy og þingmanna Sjálfstæðisflokksins um að hugsanleg kaup Orkuveitu Reykjavíkur á hlut tveggja bæjarfélaga í Hitaveitu Suðurnesja stríði gegn stefnu ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks um einkavæðingu orkufyrirtækja.
„Ungu Samfylkingarfólki er bæði ljúft og skylt að benda þessum sömu einstaklingum á að í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar er hvergi minnst á einkavæðingu orkufyrirtækja. Þar að auki telur ungt Samfylkingarfólk heppilegast að orkufyrirtækin verði áfram í opinberri eigu og að þau einbeiti sér af því að veita almenningi vatn og rafmagn á sem hagstæðustum kjörum," segir í ályktuninni.