Samgönguráðherra boðaði til blaðamannafundar í dag þar sem kynnt var sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að flýta vegaframkvæmdum á ellefu stöðum á landinu en þetta er liður í aðgerðum til að mæta skerðingu á aflamarki á næsta fiskveiðiári. Alls á að veita 6,5 milljörðum króna umfram það sem áður hafði verið ákveðið í þessar flýtiframkvæmdir árin 2008, 2009 og 2010.
Kristján L. Möller samgönguráðherra segir framkvæmdirnar vera mjög brýnar og að verið sé að færa vegina í nútímalegt horf, enda ástandið víða óásættanlegt.