Ferðamálastofa segir, að gera megi ráð fyrir að næstu vikur verði þær annasömustu í íslenskri ferðaþjónustu frá upphafi. Fer þar saman mesti sumarleyfistími Íslendinga og toppur ársins í komu erlendra gesta. Von er á allt að 40 þúsund erlendum gestum næsta hálfa mánuðinn og einnig er búist við að margir Íslendingar verði á ferð um landið.
Ferðamálastofa segir á heimasíðu sinni, að gera megi ráð fyrir miðað við kannanir og tekjur undanfarinna ára, að gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum næstu tvær vikur muni nema um 4 milljörðum króna og með viðskiptum innlendra ferðamanna muni nema alls um 6 milljörðum króna.