Dæmd í fangelsi fyrir líkamsárásir

Héraðsdómur Austurlands hefur dæmt konu í 5 mánaða fangelsi, þar af tvo mánuði skilorðsbundið, fyrir að slá konu og karlmann í höfuðið með flöskum. Báðar árásirnar voru gerðar á Fáskrúðsfirði sömu júlínóttina á síðasta ári.

Konan var ákærð fyrir að ráðast á aðra konu í kyrrstæðum bíl, slá hana í höfuð og líkama með vínflösku úr gleri, taka hana hálstaki og hárreita hana.

Konan sem ráðist var á bar, að þær hefðu verið að sniffa amfetamín í bílnum og hin konan hefði reiðst þegar hún fékk ekki meira.

Þá var konan ákærð fyrir að slá karlmann í höfuðið með bjórflösku utan við hótel í bænum síðar um nóttina. Flaskan brotnaði og maðurinn fékk sár á hvirfli. Lögreglumenn urðu vitni að þessari árás.

Fram kemur í dómnum að konan hafi alloft sætt refsingum frá árinu 2003 fyrir brot á almennum hegningarlögum og fíkniefnalöggjöf.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert