Eldvörnum í sumarbúðum ábótavant

Börn að leik
Börn að leik mbl.is/Árni Sæberg

Ástand brunavarna í þeim sumarbúðum fyrir börn sem Brunamálastofnun gerði úttekt á í fyrrasumar var slæmt í 43 prósentum tilvika og sæmilegt í 57 prósentum tilvika. Engin bygging fékk einkunnina ágætt en engin þótti heldur óviðunandi. Gerð var úttekt á 21 byggingu í 10 sumarbúðum. Þetta kemur fram í Blaðinu í dag.

Guðmundur Gunnarsson, yfirverkfræðingur hjá Brunamálastofnun, segir stöðuna ekki klapp á öxl slökkviliðsstjóra í viðkomandi sveitarfélögum en þeir tengist stundum rekstraraðilunum. Yfirverkfræðingurinn efast um að hann myndi senda barn í sumarbúðir sem fengið hafa ofangreindar einkunnir. Hann vill ekki greina frá um hvaða sumarbúðir er að ræða en segir foreldra geta hringt í viðkomandi slökkviliðsstjóra til að fá upplýsingar um ástand brunavarna í sumarbúðum því málin heyri beint undir hann.

Guðmundur segir að reikna megi með að ástandið í búðunum sé betra nú en í fyrra. „Ef gerð hefur verið athugasemd vegna viðvörunarkerfis hefur örugglega verið gerð krafa um að það yrði lagað strax. Ef um breytingar á sjálfu húsnæðinu er að ræða fer það eftir eðli kröfunnar hversu langan frest menn fá.“

Sumarbúðirnar sem gerð var úttekt á í fyrrasumar eiga það nær allar sameiginlegt að það tekur slökkvilið yfir 25 mínútur að aka frá slökkvistöð að þeim. Í einu tilfelli er hægt að segja að það taki 15 mínútur. Þess vegna eru gerðar strangar kröfur um rýmingarleiðir, að sögn Guðmundar.

Sjá nánar í Blaðinu í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert