Í dag funduðu fulltrúar íbúa við Njálsgötu í Reykjavík og borgarstjóri um áætlað athvarf fyrir heimilislausa karlmenn að Njálsgötu 74. Á morgun verður tekin ákvörðun í borgarráði um hvort heimilið verður staðsett við Njálsgötu og hyggst borgarstjóri kynna sjónarmið íbúa götunnar.
Íbúar við Njálsgötu sendu sameiginlega erindi til allra borgarfulltrúa og borgarráðsmanna, þar sem þess er óskað að þeir svari 12 spurningum við afgreiðslu málsins. Það gerðu þeir í þeirri „von íbúa að borgarfulltrúum verði þá ljóst hversu illa hefur verið staðið að undirbúningi málsins og að fyrirhuguð staðsetning er ákaflega vanhugsuð,“ segir í fréttatilkynningu.
Kristinn Örn Jóhannesson, annar fulltrúi íbúa í samráðsnefnd borgarinnar um málið, segir fundinn hafa farið vel fram og borgarstjóra hafa gefið sér nægan tíma til þess að sjónarmið beggja aðila. Þá hafi hann afhent fulltrúum íbúa svör velferðarráðs við fyrirspurnum þeirra.
„Við ítrekuðum að þetta húsnæði væri óheppilegt fyrir svona starfsemi með tilliti til nágranna þess,“ segir Kristinn og segir nokkra íbúa íhuga að flytja ef borgarráð samþykkir tillögu velferðarráðs á morgun. „Við höfum áhyggjur af útigangsfólki sem kann að koma að heimsækja gamla vini - ástandið í miðbænum er ekki gott fyrir og nú þegar eru nokkrir íbúar hræddir við að fara út að kvöldi til,“ bætir hann við.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri segist vona að þessi fundur hafi sýnt hversu mikla áherslu Reykjavíkurborg leggur á að vanda til verka. Aldrei hafi verið lagt svo mikið í að búa heimilislausum heimili.
„Ég á von á því að heimilið verði til sóma, en ef það verður valdur að áreiti og ónæði mun ég leggja til að starfsemin verði færð,“ segir Vilhjálmur sem mun kynna sjónarmið íbúa Njálsgötu fyrir borgarráði á morgun en segist þó fullviss um að ráðið muni samþykkja athvarfið.