Kartöflurnar í aðalhlutverki

Fyrstu íslensku kartöflur sumarsins voru teknar upp í dag, en uppskeran hófst klukkan fimm í morgun hjá Birki Ármannssyni, bónda í Brekku í Þykkvabæ. Kartöflunum var strax ekið til Reykjavíkur, þeim pakkað í sérmerktar umbúðir og komið í verslanir.

Formleg, opinber smökkun á kartöfluuppskerunni fór fram á veitingastaðnum Þremur frökkum hjá Úlfari Eysteinssyni í hádeginu.

Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra varð fyrst til að smakka á uppskeru ársins ásamt Þórhalli Bjarnasyni, formanni Sambands garðyrkjubænda, og öðrum valinkunnum sérfræðingum í íslensku kartöflunni, t.d. Hrefnu Sætran yfirkokki á Fiskmarkaðnum og Loga Ólafssyni knattspyrnuþjálfara.

Kartöfluuppskera fyrsta dagsins er ekki stór og reynsla undanfarinna ára sýnir að ekki fá allir sem vilja á fyrsta uppskerudegi. Því er bent á að kartöflur verða teknar upp daglega næstu vikurnar, sendar í verslanir jafn óðum, og eykst uppskeran frá degi til dags. Ættu því allir að geta gætt sér á nýjum íslenskum kartöflum í sumar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert