orsi@mbl.is
Karlmaður á þrítugsaldri liggur á taugadeild Landspítalans með höfuðáverka eftir alvarlega líkamsárás í miðbæ Reykjavíkur aðfaranótt laugardags. Hann varð fyrir fólskulegri árás fjögurra manna sem gengu í skrokk á honum og félaga hans sem ökklabrotnaði og rifbrotnaði í árásinni. Er hann kominn heim af sjúkrahúsi og verður frá vinnu næstu vikur eða mánuði en sá fyrrnefndi þarf að liggja áfram á spítala.
Mennirnir sem ráðist var á eru vinnufélagar og voru að skemmta sér þegar fjórmenningarnir veittust fyrirvaralaust að þeim. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er með málið til skoðunar og er kæra á leiðinni að sögn annars brotaþolans, Guðna Kristjánssonar. Átti hann sér einskis ills von þegar árásin hófst við Bankastrætið. "Einn í hópnum var forsprakkinn og ég vissi ekki fyrr til en reynt var að sparka í mig. Þegar ég reyndi að verja mig stukku hinir til."
Þegar hann er spurður hvað gæti hugsanlega hafa komið árásinni af stað, segir hann að árásarmennirnir hafi augljóslega verið í leit að slagsmálum. Mennirnir voru 20-25 ára gamlir. Einhverjar hótanir hrukku af vörum þeirra og grobb vegna karatekunnáttu mun hafa fylgt með.
"Ég minnist þess að það kom par til að hlúa að okkur og óskaði eftir því að þau gæfu sig fram við lögregluna, það er spurning hvað þau sáu mikið af árásinni," sagði Guðni. Atvikið varð um kl. 5 á laugardagsmorgun. "Ég hef ekki lent í öðru eins og held að fólk ætti að fara varlega í að vera í bænum eftir klukkan fjögur að nóttu til að varast óþokkalýð sem þar er."