Starfsfólki í rækjuvinnslu Ramma hf. á Siglufirði var í dag tilkynnt að félagið hyggðist hætta rækjuvinnslu í lok október í haust. Jafnframt var starfsfólkinu tilkynnt að því myndi berast uppsagnarbréf í þessum mánuði. Þrjátíu og einn starfsmaður vinna nú að rækjuvinnslu hjá Ramma hf. flestir í fullu starfi.
Í yfirlýsingu frá stjórnendum Ramma er harmað grípa þurfi til þessara harkalegu aðgerða en hjá þeim verði ekki komist.
Þar kemur fram, að tap á rekstri rækjuvinnslunnar hafi verið umtalsvert á liðnum árum. Fyrir utan fjármagnskostnað og afskriftir hafi tapið verið ríflega 300 milljónir á undanförnum tveimur og hálfu ári. Helstu ástæður fyrir þessum mikla taprekstri séu hátt gengi íslensku krónunnar, hrun rækjuveiða við Ísland og erfið staða á helstu mörkuðum. Á sama tíma hafi verið vaxandi rækjuveiði- og vinnsla í Kanada. Auk þessa hafi Evrópusambandið nú ákveðið að veita kanadískum rækjuframleiðendum verulegar tollaívilnanir frá því sem verið hafi og ljóst að það muni veikja íslenska rækjuiðnaðinn enn frekar. Framboð á heitsjávarrækju hefur einnig aukist mikið.
„Lausatök ríkisvaldsinns við stjórn efnahagsmála samhliða mikilli uppbyggingu stóriðju og hávaxtastefna Seðlabanka Íslands eru, og hafa verið, útflutningsatvinnuvegunum fjandsamleg," segir í yfirlýsingunni. „Við þær aðstæður sem nú eru uppi í íslenskum sjávarútvegi sér fyrirtækið sér ekki kleift að þreyja þorrann lengur í von um betri tíð, þar sem ljóst er að framundan er mikill kvótaniðurskurður með óhjákvæmilegu tekju- og framlegðartapi. Ákvörðun sjávarútvegsráðherra um 130 þúsund tonna aflamark í þorski þýðir að þorskkvóti Ramma hf. skerðist um 1.997 tonn á næsta fiskveiðiári."