Tuttugu og sjö ökumenn voru teknir fyrir hraðakstur á höfuðborgarsvæðinu í gær. Grófasta brotið var framið á Sæbraut en þar mældist bíll á 115 km hraða. Ökumaðurinn verður sviptur ökuleyfi. Að öðru leyti gekk umferðin vel fyrir sig. Sextán umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en það telst í minna lagi.
Þá segir lögregla marga ekki hafa fært ökutæki sín til skoðunar en hún hafði afskipti af nokkrum slíkum ökumönnum í gær. Einn ökumaður var stöðvaður fyrir að aka á nagladekkjum en viðkomandi bar við vankunnáttu á umferðarlögum. Málsvörn hans kom að litlu gagni og fær hann sekt eins og aðrir sem brjóta gegn þessu ákvæði umferðalaganna.
Þá stöðvaði lögreglan ökumann sem flutti sjö farþega í bíl sínum, en þó voru aðeins sæti og bílbelti fyrir fjóra farþega í ökutækinu. Athæfi sem þetta endurspeglar mikið ábyrgðarleysi og er ekki til eftirbreytni, að sögn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.