Dýrmæt gestabók horfin af Hótel Búðum

Gestabók Hótel Búða, myndskreytt af Sigríði Gísladóttur frá Bjarnarfossi.
Gestabók Hótel Búða, myndskreytt af Sigríði Gísladóttur frá Bjarnarfossi.

Gestabók Hótel Búða, myndskreytt af listakonunni Sigríði Gísladóttur frá Bjarnarfossi, hvarf með dularfullum hætti í gær. Bókin er sú fimmta sem listakonan gerir fyrir hótelið frá því að það opnaði að nýju árið 2003.

Gestabækurnar er til sýnis í anddyri hótelsins og í gær átti að taka þá fimmtu í gagnið. Olga Örvarsdóttir, starfsmaður hótelsins, segir að ef um stuld er að ræða líti hún það sömu augum og ef málverki hefði verið stolið af veggjum hótelsins. Bókin skartar upprunalegri mynd Sigríðar af konu og fiskum, eins og þær fjórar fyrri.

„Ef bókinni var stolið þykir mér ansi hart að geta ekki haft þessar fallegu gestabækur til sýnis og við starfsfólk hótelsins og listakonan erum miður okkar yfir hvarfinu,“ segir Olga.

Það var síðdegis í gær sem upp komst að bókin væri horfin. Hótelið var fullbókað í gærdag, auk þess sem margir komu við á veitingastað þess. Ef einhver kann að vita hvar bókin er niður komin er hægt að hafa samband við móttöku hótelsins í síma eða senda tölvupóst.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert