Færri með strætó

Farþegum Strætó bs. fækkaði um 30.000, eða 6%, í júní miðað við sama mánuð í fyrra. Í byrjun mánaðarins var dregið verulega úr þjónustu á vegum fyrirtækisins, leiðum fækkað og tíðni ferða skorin niður um þriðjung.

Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætós, segir þetta ekki koma sér á óvart. "Þetta er í rauninni það sem við áttum von á, því við fækkuðum náttúrlega ferðum.

Fækkun farþega er samt minni en sem því nemur, þannig að við erum bara tiltölulega sáttir." Hann segir að forsvarsmönnum fyrirtækisins sé þó alls ekki skemmt yfir því að þurfa að draga úr þjónustu við borgarbúa.

Fjárhagsstaðan slæm

Hann segir að einhugur ríki í stjórn Strætós um að bæta þjónustuna, en að fjárhagurinn leyfi það ekki um sinn. "Við eigum við þennan fortíðarvanda að etja. Eitt af því sem stjórn félagsins ákvað að gera til þess að bregðast við þessum greiðsluvanda var að spara í rekstri fyrirtækisins. Bæjarfélögin sem stóðu að samlaginu vildu ekki auka framlög til rekstrarins. Við getum ekki sparað nema í veittri þjónustu, þar liggja peningarnir."

Reynir segir að sala á fyrirframgreiddum fargjöldum hafi dregist saman eftir að forsvarsmenn bæjarfélaganna gáfu út yfirlýsingar um að vissir hópar fengju ókeypis í Strætó. "Það koma minni peningar inn af seldum fargjöldum, fyrir utan staðgreiðsluna. Við fórum að finna þetta um leið og þessar yfirlýsingar fóru allar í loftið."

Ekki hefur ennþá verið gengið frá samningum milli Kópavogsbæjar og Strætós um það að Kópavogsbúar njóti gjaldfrjálsra almenningssamgangna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert