Kona staðin að verki við innbrot

Kona á þrítugsaldri var handtekin í Vogahverfi í Reykjavík í gær en hún er grunuð um innbrot. Húsráðandi kom að konunni þar sem hún var í miðjum klíðum að bera muni út úr íbúð hans. Hálffertugur karlmaður var sömuleiðis handtekinn í tengslum við rannsókn málsins.

Á öðrum stað í austurborginni fór tæplega tvítugur piltur í fyrirtæki og stal fartölvu fyrir framan nánast nefið á starfsmönnum sem þar voru við vinnu sína. Starfsmennirnir og viðskiptavinir náðu að hlaupa þjófinn uppi og halda honum föstum þar til lögregla kom á vettvang.

Í Kringlunni var karlmaður á þrítugsaldri staðinn að hnupli og í Smáralind voru teknar tvær unglingsstúlkur, 13 og 14 ára, sem voru að stela snyrtivörum. Á öðrum stað í Kópavogi handtók lögregla hálffertuga konu en í fórum hennar var varningur sem hún gat ekki gert grein fyrir, m.a. fartölva og nokkurt magn lyfja.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert