Lyfjastofnun telur, að vefsíðan minlyf.net, sem íslenskur læknir í Svíþjóð stendur fyrir, sé auglýsing fyrir póstverslun með lyf og hún sé því ólögleg. Fram kom í fréttum Útvarpsins, að stofnunin hefur óskað eftir því að vefsíðunni verði lokað.
Lyfjastofnun hóf rannsókn á því í byrjun mánaðarins hvort læknirinn bryti lög með því að leysa út í sænsku apóteki íslenska lyfseðla fyrir aðra. Læknirinn auglýsir þjónustu sína á vefsíðunni Mín lyf.net. Hann býður fólki að senda sér í pósti lyfseðlana, lyfin leysir hann út og sendir í pósti til Íslands.
Regína Hallgrímsdóttir, sviðsstjóri eftirlitssviðs Lyfjastofnunar, sagði í fréttum Útvarpsins að lækninum hafi verið sent bréf á mánudag þar sem óskað er eftir því að hann loki vefsíðunni.