Nýta ekki forkaupsrétt í Hitaveitu Suðurnesja

Sátt hefur myndast meðal hluthafa í Hitaveitu Suðurnesja.
Sátt hefur myndast meðal hluthafa í Hitaveitu Suðurnesja. mbl.isHelgi Bjarnason

Samkvæmt kaupsamningum sem gerðir hafa verið í tengslum við hluthafasamkomulag hjá Hitaveitu Suðurnesja verður eignarhlutur Reykjanesbæjar í Hitaveitu Suðurnesja 34,75%, eignarhlutur Geysis 32%, eignarhlutur Hafnarfjarðarbæjar 15,42% og eignarhlutur Orkuveitu Reykjavíkur 16,58%. Sveitarfélögin fjögur á Suðurnesjum; Grindavík, Sandgerði, Garður og Vogar halda samtals 1,25% eignarhlut í HS. Núverandi hluthafar HS munu ekki beita forkaupsrétti sínum í þeim viðskiptum sem framundan eru.

Hafnarfjarðarbær og Orkuveita Reykjavíkur hafa auk þess gert með sér samkomulag um sölurétt Hafnarfjarðarbæjar á hlut sínum í HS til Orkuveitu Reykjavíkur og við nýtingu slíks réttar yrði hlutur Orkuveitunnar í HS samtals 32,0%. Þetta kemur fram í í sáttasamkomulagi um eignarhald á Hitaveitu Suðurnesja sem Reykjanesbær, Hafnarfjarðarbær, Orkuveita Reykjavíkur og Geysir Green Energy ehf. hafa gert með sér.

Í sameiginlegri tilkynningu kemur fram að það er einróma álit samningsaðila að með þessu verði eignarhaldi HS komið í tryggar skorður og eru nýir hluthafar HS einhuga um að vinna ötullega að vexti og viðgangi fyrirtækisins sem sjálfstæðs og öflugs orkufyrirtækis. Höfuðstöðvar HS verða áfram í Reykjanesbæ.

OR og Geysir veita stuðning við ýmis málefni á starfssvæði HS

„Samkomulagið fjallar um eignarhald þessara aðila á HS, um samstarf þeirra innan félagsins og um framtíðaráherslur í starfi HS. Í samstarfinu er einnig kveðið á um aðkomu Orkuveitu Reykjavíkur og Geysis að ýmsum málum á Suðurnesjum, þ.m.t. málum sem varða Keili, Atlantic Center of Excellence, á fyrrum varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli.

OR og Geysir hyggjast einnig veita fjárhagslegan og félagslegan stuðning við menningar-, íþrótta- og áhugafélög á starfssvæði Hitaveitu Suðurnesja," að því er segir í tilkynningu.

Gert er ráð fyrir því að stjórn HS verði skipuð 7 mönnum; þremur frá Reykjanesbæ, tveimur frá Geysi Green Energy, einum frá OR og einum frá Hafnarfjarðarbæ.

Samningsaðilar lýsa yfir ánægju með samkomulagið

Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, segir í fréttatilkynningu,: „það er okkur í Reykjanesbæ mikið ánægjuefni að þeir aðilar sem sýnt hafa framtíð HS hvað mestan áhuga hafi náð að stilla saman strengi sína um framtíð félagsins. Þessi niðurstaða fellur vel að markmiðum okkar bæjarfélags um uppbyggingu Hitaveitu Suðurnesja á Suðurnesjum því aðilar eru sammála um að HS hafi mikla framtíðarmöguleika og munu styðja þá uppbyggingu sem framundan er hjá félaginu.“

Gunnar Svavarsson, bæjarfulltrúi í Hafnarfirði, segir í tilkynningu,: „viljayfirlýsingin og hluthafasamkomulagið tryggir stöðu Hafnarfjarðarbæjar og íbúa sveitarfélagsins innan Hitaveitu Suðurnesja hf. Það var það verkefni sem við Hafnfirðingar unnum að auk þess sem nú bætast við nýir hluthafar sem munu gefa félaginu aukinn kraft til frekari uppbyggingar.

Við höfum átt gott samstarf innan HS hf. og þrátt fyrir að nú liggi fyrir sölutilboð okkur til handa, munu þeir hlutir verða skoðaðir í fyllingu tímans.

Niðurstaðan er góð fyrir félagið og góð fyrir þá hluthafa sem standa að Hitaveitu Suðurnesja, það er bjart framundan hjá félaginu." Ásgeir Margeirsson, forstjóri Geysir Green Energy, segir í fréttatilkynningu,: „við hjá Geysi erum ánægð með þá lausn sem aðilar málsins hafa komið sér saman um og fögnum því mjög að vera aðilar að þessu samkomulagi og þeirri framtíð sem með því er tryggð fyrir Hitaveitu Suðurnesja.

Hitaveita Suðurnesja er gott félag með gott fólk innanborðs sem hefur möguleika á að starfa við hlið okkar í útflutningi á íslenskri þekkingu á sviði orkumála. Við teljum það mikið ábyrgðarhlutverk að vera hluthafi í fyrirtæki eins og Hitaveitan er og það er okkar markmið að félagið haldi áfram að vaxa og dafna, öllum hagsmunaaðilum félagsins, viðskiptavinum og öðrum til heilla. Þetta samstarf treystir grunninn undir íslenska orkuútrás."

Haukur Leósson, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, segir í fréttatilkynningu,: „ég er ánægður með samkomulagið og tel að það sé byrjunin á góðu samstarfi fyrirtækjanna þriggja í framtíðinni hvort sem er hér heima eða erlendis. Þá er gott að áform ríkisstjórnarinnar gerðu meira en að ganga eftir. Þar sem nú eru rúm 30% komin í hendur einkaaðila ì stað þeirra 15% sem áætluð voru."

Júlíus Jón Jónsson, forstjóri Hitaveitu Suðurnesja, segir í tilkynningu,: „ég fagna því að þessi mál skuli hafa verið leyst og bind miklar vonir við að samstarf við öfluga aðila m.a. á sviði útrásar og frekari virkjana komi til með að efla og styrkja fyrirtækið enn frekar í framtíðinni, viðskiptavinum, starfsmönnum og eigendum til farsældar."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert