Sátt hefur náðst um eignarhluti í Hitaveitu Suðurnesja eftir viðræður aðila undanfarna daga. Sáttatillaga verður lögð fyrir bæjarráð Hafnarfjarðarbæjar og Reykjanesbæjar í dag og í kjölfarið gerð opinber.
Eftir því sem Morgunblaðið kemst næst er hlutur Hafnarfjarðarbæjar í HS tryggður með aðkomu Orkuveitu Reykjavíkur og Geysir Green Energy og Reykjanesbær munu halda utan um þriðjungshlut hvor.
Styr hefur staðið um eignarhluti í HS frá því Hafnarfjarðarbær og Grindavíkurbær ákváðu að nýta forkaupsrétt á hlutum ríkisins í byrjun mánaðarins og fylgdi Reykjanesbær í kjölfarið. Upp kom pattstaða og skiptust aðilar í tvær fylkingar.
Eftir sáttafundi virðist nú hafa rofað til og samkvæmt heimildum Morgunblaðsins verður áfram sterk stjórn innan HS sem sameiginlega vinnur að uppgangi fyrirtækisins.