Sex strákar á aldrinum 14 til 17 ára voru stoppaðir á tveim bílum á Borgarfjarðarbrúnni seint á mánudagskvöld þegar þeir voru í árásarleiðangri á hendur unglingum í Borgarnesi. Leiðangur þeirra kom í kjölfar unglingaátaka sem brutust út við tívolíi við Smáralind fyrr um daginn en þar lentu saman unglingar af höfuðborgarsvæðinu og jafnaldrar þeirra frá Borgarnesi sem voru í heimsókn á höfuðborgarsvæðinu.
Þegar lögreglan stoppaði unglingana á Borgarfjarðarbrúnni kom í ljós að ökumenn á hvorum bíl voru 17 ára og þar af var annar þeirra próflaus og hinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Lögreglan telur að tveir úr þeim hópi hafi verið í hópnum sem veittist að borgfirsku unglingunum við Smáralindina og að hinir fjórir hafi bæst við og ákveðið að taka þátt í leiðangrinum. Þeim var öllum snúið við og ekið til foreldra eða lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og eru barnaverndaryfirvöld komin með málið til rannsóknar enn fremur.
Lögreglan í Borgarnesi hefur það eftir umsjónarmönnum borgfirsku unglinganna hversu litlu munaði að allt færi í bál og brand þegar átökin brutust út við Smáralindina, en fjöldi bíla með unglingum dreif að í kjölfar þess að farsímar sáust á lofti, eins og verið væri að biðja um liðsauka til að jafna um borgfirsku ungmennin. Það hafi hins vegar verið fyrir tilstilli mikils viðbúnaðar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu að það tókst að ná stjórn á málum, en lögreglan sendi 6-7 bíla á vettvang.