Yfirlýsing frá Karatesambandi Íslands

Vegna fréttaflutnings Morgunblaðsins af líkamsárás í miðbæ Reykjavíkur síðastliðna helgi, þar sem árásarmenn kváðust búa yfir kunnáttu í karate, vill stjórn Karatesambands Íslands árétta eftirfarandi:
„Sjálfsvarnaríþróttir hjá íslenskum íþróttafélögum eru ekki undir neinum kringumstæðum iðkaðar eða kenndar með ofbeldi í huga. Þungamiðja karatekennslu á Íslandi er keppni, sjálfsvörn og almenn líkamsrækt enda gera karatefélög hér á landi iðkendum sínum það ljóst strax frá upphafi að beiting hvers kyns ofbeldis er ekki hluti af karate og brýtur mjög í bága við allar grundvallarreglur þeirrar íþróttar. Karatesambandið lítur misnotkun íþróttarinnar mjög alvarlegum augum og leiða slík brot skilyrðislaust til brottvísunar hins brotlega frá viðkomandi félagi og íþróttinni almennt.

Stjórn sambandsins telur það mjög hæpið að íslenskir karateiðkendur fari með oddi og egg gegn samborgurum sínum í miðbæ Reykjavíkur um helgar, allra síst þeir sem náð hafa árangri í íþróttinni en alkunna er að það ógæfufólk sem sækir í sjálfsvarnaríþróttir með ofbeldi í huga hefur átt skamman feril innan þeirra íþróttafélaga sem kenna slíkar íþróttir enda andinn þar innandyra almennt á friðsömum nótum. Agi, virðing og kurteisi eru grundvallarkenniorð karateiðkunar og -kennslu og hefur íslenskt karatefólk almennt borið gæfu til að lifa samkvæmt því. Stjórn Karatesambandsins leyfir sér að álykta að hafi yfirlýsingar árásarmanna um karatekunnáttu ekki verið úr lausu lofti gripnar hafi karateferill þeirra í besta falli verið endasleppur enda slíkir iðkendur íþróttinni til skammar," að því er segir í yfirlýsingu frá Karatesambandi Íslands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert