Samfylkingin mótmælir því harðlega að horfið hafi verið frá því að þjónustuíbúðir aldraðra rísi í Mörkinni. Þess í stað er byggingaraðilum nú frjálst að selja þar lúxusíbúðir, en einsog fram hefur komið í fjölmiðlum er ætlunin að fermetraverðið verði allt að 500.000 kr. Þar með er ljóst að íbúðirnar verða aðeins fyrir útvalda. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Degi B. Eggertssyni, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar.
„Forsaga málsins er sú að félagasamtökin Markarholt fékk úthlutað lóð í Mörkinni, nánar tiltekið Sogamýri, til byggingar þjónustuíbúða. Eftir erfiðleika í verkefninu var lóðinni úthlutað til nýrra aðila en á óbreyttum forsendum, þ.e. með kvöð um að á þessum stað risu þjónustuíbúðir fyrir aldraðra og að eignarhaldið væri á einni hendi. Greiddar voru 300 milljónir fyrir byggingarréttinn.
Í borgarráði í gær lagði borgarstjóri til að kvöðum í samningunum um þjónustuíbúðir fyrir aldraða yrði aflétt og að íbúðirnar mætti veðsetja og selja hverja og eina. Þar með eru borgarstjóri að leggja blessun sína yfir það sem fréttir hafa greint frá að ætlunin sé ekki að mæta þörf stórs hóps aldraðra fyrir þjónustuíbúðir heldur verði íbúðirnar seldar fyrir allt að 500.000 kr. á fermetrann. Þetta er alger umsnúningur frá yfirlýstri stefnu í málefnum aldraðra og ljóst að margir þeirra sem eru í brýnni þörf fyrir þjónustuíbúðir geta hvergi nærri fjármagnað kaup á íbúð sem kostar um eða yfir 50 milljónir.
Fulltrúar Samfylkingarinnar mótmæltu þessum ráðagerðum harðlega og greiddu atkvæði gegn þeim ásamt öðrum fulltrúum minnihlutans í borgarráði. Þessi mótmæli voru undirstrikum með svohljóðandi bókun:
„Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna mótmæla því harðlega að fallið sé frá kvöðum um að þjónustuíbúðir fyrir aldraða rísi í Sogamýri. Engin rök hafa komið fram fyrir því að breyta fyrirliggjandi samningum við byggingaraðila að þessu leyti. Með því að aflétta þessum kvöðum hefur meirihluti borgarstjórnar umsnúist og gefið byggingu lúxusíbúða forgang á kostnað uppbyggingar á færi alls þorra aldraðra sem lengi hefur verið beðið eftir. Ljóst er að fermetraverð upp á allt að 500.000 kr. á fermetra er aðeins fyrir útvalda. Þar sem þessu verkefni hefur verið mikið hampað sem sérstöku átaki í þágu aldraðra vekur þetta ótal spurningar um stefnu meirihlutans að þessu leyti,” að því er segir í tilkynningu frá Degi B. Eggertssyni.