Héraðsdómur Reykjavíkur hefur hafnað kröfu flugfélagsins Fjarðaflugs um að Flugskóla Helga Jónssonar verði gert að fjarlægja bíl og grjót að hluta lóðar á Reykjavíkurflugvelli, þar sem Fjarðaflug ætlar að koma upp aðstöðu fyrir flugafgreiðslu. Ríkið á lóðina og kemur fram í dómnum að samþykki þess hafi ekki legið fyrir þegar Fjarðaflug fékk vilyrði fyrir því að reisa bráðabirgðaaðstöðu á þessum stað.
Af hálfu byggingarfulltrúans í Reykjavík, Flugstoða ohf. og Fjarðaflugs var í mars sl. skrifað undir yfirlýsingu um að Fjarðaflug fengi að reisa sérhannaða gámaeiningu fyrir flugafgreiðslu á lóðarmörkum austan við Flugskóla Helga Jónssonar á Reykjavíkurflugvelli gegn því skilyrði að um yrði að ræða bráðabirgðaaðstöðu til eins árs. Um er að ræða gáma, samtals þrjár einingar á tveimur hæðum til notkunar fyrir flugmenn og farþega fyrirtækisins á Reykjavíkurflugvelli.
Fyrir dómnum sögðu forsvarsmenn Fjarðaflugs, að þegar átti að hefjast handa við að reisa gámana í apríl hafi Helgi Jónsson komið í veg fyrir að þeir yrðu settir niður með því meðal annars að aka bifreiðum undir kranann þannig að kranamaðurinn hafi gefist upp á verkefni sínu. Hafi bæði menn og munir verið í stórhættu vegna þessa. Höfðaði Fjarðaflug síðan mál og krafðist þess að Helgi fjarlægði bíla og steina af lóðinni svo hægt væri að koma gámunum fyrir.
Helgi hélt því hins vegar fram að Fjarðaflug ætlaði að setja hús sitt á bílastæði sem hann hefði full umráð yfir. Vísaði hann m.a. í afgreiðslur borgarráðs, fjármálaráðuneytis og Flugmálastjórnar á árunum 2001 og 2002.
Þá sagði Helgi, að hann hefði sent stjórnsýslukæru til skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar og til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála vegna málsins og afgreiðslu á kærunum sé ekki lokið. Loks benti hann á, að umræddur reitur væri í eigu íslenska ríkisins og Fjarðaflug hefði ekki aflað sér leyfis ríkisins til að setja gámana niður. Úthlutun skipulagsyfirvalda án heimildar landeiganda væri markleysa og Flugstoðir ohf. hefðu engan ráðstöfunarrétt á landinu.
Dómurinn tekur undir, að Flugmálastjórn og síðan Flugstoðum ohf. hafi ekki með lögum verið veittar heimildir til ráðstöfunar á lóðum í eigu ríkisins á flugvallarsvæðinu. Að þessu virtu verði ekki séð að við töku ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík hafi legið fyrir samþykki eiganda lóðarinnar, fjármálaráðuneytisins, fyrir hönd íslenska ríkisins. Geti samþykki ráðuneytisins, sem veitt var með bréfi hinn 3. júlí sl., eða eftir að ákvörðun byggingarfulltrúans var tekin, engu breytt í þessu sambandi.