Engin heimild var fyrir mótmælum umhverfisverndarsinna við miðbæ Reykjavíkur í gær, segir varðstjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Almannahagsmunir réðu för í aðgerðum lögreglu.
Arinbjörn Snorrason, varðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir lögregluna hafa boðið mótmælendum frá aðgerðarsamtökunum Saving Iceland að ganga heldur niður Laugarveg, þar sem Snorrabraut er ein stofnbrauta neyðarliðs og lögreglu í borginni. Varðstjórinn segir mótmælendur hafa hafnað boði lögreglunnar, því þeim var ekki heimilt keyra bíl með kerru, sem mótmælendur stóðu upp á. Þá stóðu nokkrir uppi á bílnum sjálfum.
Þegar lögregla reyndi að ná tali af ökumanni bílsins læsti hann að sér. Það var þá sem lögregla greip til aðgerða sem leiddi til handtöku fjögurra mótmælenda.
Arinbjörn segir nauðsynlegt að biðja um leyfi fyrir aðgerðum sem þessum, þar sem lögregla verður að skipuleggja fyrir fram og tryggja öruggar leiðir fyrir neyðarakstur.
Þá segir lögreglumaðurinn að fólkið hafi greinilega verið viðbúið handtöku, þar sem það hafði skrifað símanúmer lögfræðings hópsins á handlegginn. Slíkt þekki lögreglan frá mótmælum á Austfjörðum fyrir ári síðan.
Allir þeir sem handteknir voru í gær hafa verið látnir lausir. Þeir eru þó ekki lausir allra mála, þar sem þeir verða kærðir fyrir fara ekki að fyrirmælum lögreglu, fyrir umferðalagabrot, aðild að uppþoti og að hindra lögreglu í starfi.