Fjórir mótmælendur voru handteknir í gær þegar aðgerðasamtökin Saving Iceland mótmælti stóriðjustefnu og virkjunum. Þrír mannanna gistu fangageymslur í nótt en einum þeirra var sleppt í gærkvöldi.
Aðgerðarsamtökin stóðu fyrir götupartýi í Öskjuhlíð í Reykjavík í gær. Hópurinn ætlaði að ganga niður Laugarveg en lögregla kom í veg fyrir það. Þá stoppuðu nokkrir tugir mótmælenda við Snorrabraut og sungu og dönsuðu uppi á bílum, áður en þeir héldu áfram þar sem leið lá niður á Hlemm þar sem fólkið hélt áfram mótmælum fyrir utan lögreglustöðina.
Sigurður Helgason, betur þekktur sem Siggi Pönk, sagði í fréttum Útvarps að mennirnir sem lögreglan handtók í mótmælunum væru óeðlilega lengi í haldi, þar sem um pólitísk mótmæli væri að ræða. Þeim hefði annars verið sleppt fyrr.