Íslensk stjórnvöld gætu lækkað lyfjaverð til muna með því að heimila innflutning á lyfjum sem samþykkt hafa verið af lyfjaeftirliti á Norðurlöndunum sagði Guðni B. Guðnason, framkvæmdastjóri Lyfja og heilsu í fréttum Útvarpsins. Hann segir að ekki sé nauðsynlegt að Lyfjastofnun fari yfir þau lyf né að íslenskar leiðbeiningar séu látnar fylgja hverri lyfjapakkningu.
Heilbrigðisráðherra hefur látið kanna hvernig megi draga úr samkeppnishömlum á lyfjamarkaði og formaður þingflokks Samfylkingarinnar sagði nýverið í fréttum Útvarpsins að hann ætli að beita sér fyrir lögleiðingu póstverslunar með lyf í kjölfar þess að Lyfjastofnun úrskurðaði nýverið að vefsíðan minlyf.net væri póstverslun með lyf og þar með ólögleg.
Vefsíðan auglýsir þjónustu íslensks læknis búsetts í Svíþjóð sem býður fólki að senda sér lyfseðla sem hann leysir út í sænsku apóteki og sendi með pósti til Íslands. Læknirinn segir fólk í sumum tilvikum getað sparað sér umtalsverðar fjárhæðir með þessu.