arnthorh@mbl.is
Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra segir að háir stýrivextir Seðlabankans haldi vart til lengdar. Hún álítur þá íþyngjandi fyrir almenning og smá og meðalstór fyrirtæki, en stórfyrirtækin fjármagni starfsemi sína að mestu með erlendum lánum.
Jóhanna segir einnig að bankarnir hafi sett erlent fjármagn á lánamarkaðinn og það valdi miklu um þá þenslu sem nú er m.a. á húsnæðismarkaðinum og birtist einnig í aukinni skuldasöfnun heimilanna. Þetta eigi ríkan þátt í því að hagstjórn Seðlabankans sé dæmd til að mistakast.
Þá segir hún stjórnarflokkana ákveðna í að efla velferðarkerfið enda sé það forsenda þess að öflugur markaðsbúskapur geti þrifist hér á landi. Hún vill endurmeta umönnunarstörf til þess að laða að hæft fólk. Þá telur hún brýnt að þjónusta verði miðuð við þarfir einstaklinga í stað þess að miða við hagsmuni kerfisins. Hún telur nauðsynlegt að fjarlægja ýmsar "gildrur" úr lögum um almannatryggingar og einfalda þau. Einnig gefist gott tækifæri til að einfalda félagslega kerfið þegar lífeyrisþáttur almannatrygginga flyst í félagsmálaráðuneytið.
Jóhanna segir nauðsynlegt að grípa til ýmissa mótvægisaðgerða vegna niðurskurðar þorskveiðikvótans. Hún vill sérstaklega huga að málefnum kvenna sem starfa við fiskvinnslu og grípa til ýmissa ráðstafana til þess að styrkja innviði sveitarfélaganna. Nefnir hún þar m.a. flutning verkefna, svo sem málefna aldraðra og fatlaðra. Hún segir nauðsynlegt að ná sátt um aukna tekjustofna handa sveitarfélögunum svo að þau geti sinnt nauðsynlegri þjónustu.
Ítarlegt viðtal er við Jóhönnu í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.