Móðir húsráðanda hringdi sjálf í lögregluna eftir ábendingu frá nágrönnum um óleyfilegt skemmtana hald á heimilinu að foreldrunum fjarstöddum sl. föstudag. Í Morgunblaðinu í gær var greint frá því að lögreglan hefði leyst upp fjölmennt unglingapartí í Hafnarfirði.
Að sögn móður húsráðanda, sem er rétt tæplega 16 ára stúlka, var stúlkan ekki ein heima um helgina meðan foreldrarnir skruppu út úr bænum heldur var tvítugur bróðir hennar heima. Hann hafði ákveðið að bregða sér stuttlega frá þar sem systir hans hafi verið á leiðinni út með vinkonum sínum.
Segir hún það hins vegar hafa spurst út með smáskilaboðum að stúlkan væri ein heima og í kjölfarið hafi óboðnir gestir farið að streyma að. Móðirin vonar að þessi slæma reynsla þeirra verði öðrum foreldrum víti til varnaðar.