Umhverfisnefnd Ísafjarðarbæjar hefur lagt til að leitað verði álits Umhverfisstofnunar og Náttúrustofu Vestfjarða á breytingum á fuglalífi í Hornbjargi. Greint er frá þessu á vef Bæjarins besta.
Nefndin tók á dögunum fyrir erindi Tryggva Guðmundssonar, eggjatínslumanns og lögfræðings á Ísafirði, þar sem hann lýsir þeim breytingum sem orðið hafa á fuglalífi í og við Hornbjarg, sem hann telur fyrst og fremst vera af völdum refs.
Tryggvi kallar á aðgerðir til að snúa þeirri óheillaþróun við. Í bréfinu lýsir hann þeim mikla mun sem blasti við honum í Hvolfinu í síðasta mánuði frá því hann hóf þar fyrst eggjatínslu fyrir þrjátíu árum. Nú sé lundinn og hvítmáfurinn horfinn og svartfuglinum hafi fækkað til muna.
„Þessi ótrúlega breyting á lífríkinu er ekki bundin við þetta svæði eitt í Hornbjarginu. Allt vestan frá Rana austur að Fjölum er sama sjónin. Lundabrekkurnar auðar, hvítmáfurinn og svartbakur horfnir, svartfuglinn í neðstu þræðingum er horfinn, fýllinn sést á stangli og æðarkollan sem verpti í fjörunni er einnig horfin. Eina fuglategundin sem heldur velli er ritan sem verpir á litlum klettasnösum í þverhníptu berginu“, segir í bréfinu.