Þórsarar hafna samkomulaginu við Akureyrarbæ

Aðalfundur íþróttafélagsins Þórs á föstudagskvöld felldi samkomulag sem stjórn félagsins gerði við bæjaryfirvöld um uppbyggingu á íþróttamannvirkjum. Samkomulagið fól í sér að byggður yrði knattspyrnuvöllur og aðstaða fyrir frjálsíþróttastarf á Þórssvæðinu, auk annarra minni framkvæmda. Fyrirhugað er að halda landsmót UMFÍ á Akureyri sumarið 2009, en í framhaldi af þessari ákvörðun er ekki víst að það geti gengið eftir.

"Þessi niðurstaða er mjög mikil vonbrigði," segir Sigfús Helgason, formaður Þórs. Hann segir að fundarmenn hafi sett fyrir sig þrjú atriði í samningnum. Í fyrsta lagi hafi margir verið ósáttir við að leggja ætti niður Akureyrarvöll, en þá ákvörðun segir Sigfús ekki í höndum félagsins. Í öðru lagi hafi sumir haft áhyggjur af því að frjálsíþróttaaðstaðan þrengdi að þeim greinum sem starfsemi Þórs byggist á, fótbolta, handbolta, körfubolta og taekwondo. Sigfús segir að vissulega hefði eitthvað þrengst um á svæðinu, en aftur á móti sé horft til þess til framtíðar að félagið verði ekki með alla sína starfsemi á einum stað. Að síðustu hafi einhverjum ekki fundist tilboð bæjarins nógu hátt, en félagið átti að fá 26 milljóna króna bætur fyrir að missa afnot af svæðinu.

Sigfús segist óttast að ákvörðun fundarins setji áform um landsmót UMFÍ á Akureyri sumarið 2009 í uppnám. "Með þessari ákvörðun fundarins er ekki staður fyrir landsmót á Akureyri. Menn verða að vinna hratt ef þeir ætla að halda mótið hér."

Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert