Vantaði far til Reykjavíkur

Toyota Avensis bifreið var stolið á Selfossi skömmu eftir hádegi á föstudag. Eigandinn hafði lagt bifreiðinni við vinnustað sinn við Austurveg á Selfossi án þess að læsa henni eða hafa með sér kveikjuláslykilinn. Ölvaður maður sem vildi komast til Reykjavíkur, fannst bera vel í veiði er hann átti leið um Austurveginn og rak augun í að bifreiðin væri ferðbúin og öllum tæk. Hann settist inn í bifreiðina og ók af stað, samkvæmt dagbók lögreglunnar á Selfossi.

Eigandi bifreiðarinnar varð fljótt var við að bifreiðin var horfin og tilkynnti það strax til lögreglu. Vakthafandi varðstjóri á Selfossi hóf þegar í stað vinnu við að hafa upp á bílþjófnum en glöggur lögreglumaður á höfuðborgarsvæðinu hafði mætt bifreiðinni rétt áður en tilkynnt var um þjófnaðinn. Hann snéri því þegar við og fann bifreiðina þar sem henni var ekið inn á inná Hafravatnsveg og náði að stöðva bílþjófinn, samkvæmt dagbók lögreglu.

Í ljós kom að bílþjófurinn var ölvaður og sviptur ökuréttindum. Hann var handtekinn og færður á lögreglustöðina á Selfossi þar sem tekið var frá honum blóðsýni og hann færður til yfirheyrslu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka