Yfirlýsing frá Svandísi Svavarsdóttur stjórnarmanni Vinstri grænna í Orkuveitu Reykjavíkur:
„Það er afdráttarlaus afstaða Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs að grunnþjónusta samfélagsins skuli vera á hendi ríkis og sveitarfélaga. Með nýjum samningi um kaup á hlutum í Hitaveitu Suðurnesja yrði brotið blað í orkumálum Íslendinga. Þetta krefst víðtækrar umræðu í þjóðfélaginu og lýðræðislegrar afgreiðslu á Alþingi og hjá sveitarfélögum.
Áform fyrri ríkisstjórnar um að einkavæða 15,2 % i Hitaveitu Suðurnesja hafa engu viðnámi mætt hjá stjórnvöldum þrátt fyrir breytta samsetningu ríkisstjórnar og nú stefnir í að gengið verði enn lengra og að 32% veitunnar verði í eigu einkaaðila. Ef fram fer sem horfir er lýðræðislegu aðhaldi innan Hitaveitu Suðurnesja stefnt í uppnám og almannahagsmunir fyrir borð bornir.
Með þessari yfirlýsingu er vakin athygli á stórvarasamri stefnu og hættulegu fordæmi og þess krafist að ekki verði hróflað við grunnþáttum samfélagslegrar þjónustu.
Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur ber að beita sér í þágu almennings og þar með leggjast gegn einkavæðingu orkugeirans. Í því ljósi ætti stjórn OR að hafa frumkvæði að umræðu á milli ríkis og sveitarfélaga um hvernig megi tryggja að orkufyrirtæki haldist í almannaeigu en gangi ekki kaupum og sölum á hlutabréfamarkaði eins og nú stefnir í varðandi Hitaveitu Suðurnesja," að því er segir í yfirlýsingu.