Nafn mannsins sem lést í umferðarslysi í gærkvöldi

Aðalsteinn Davíð Jóhannsson
Aðalsteinn Davíð Jóhannsson

Maðurinn sem lést í umferðarslysi á gatnamótum Akrafjallsvegar og Innnesvegar í gærkvöldi hét Aðalsteinn Davíð Jóhannsson. Hann var 35 ára, búsettur á Akranesi. Aðalsteinn Davíð lætur eftir sig eiginkonu og tvö ung börn.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Akranesi er enn unnið að rannsókn málsins en slysið varð með þeim hætti að bifhjól sem Aðalsteinn Davíð ók lenti í árekstri við strætisvagn á Akrafjallsvegi við gatnamót Innnesvegar og Akrafjallsvegar. Bifhjólinu var ekið austur Akrafjallsveg og strætisvagninum í vestur með fyrirhugaða akstursstefnu suður Innnesveg, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.

Bifhjólið lenti framan á strætisvagninum og hafnaði ökumaður þess utan vegar. Talið er að hann hafi látist samstundis. Var hann á leið til vinnu ásamt tveimur félögum sínum og missti annar þeirra stjórn á hjóli sínu við slysið og féll í götuna. Hann meiddist þó ekki. Slysið varð á gatnamótum Akrafjallsvegar og Innnesvegar og var Akrafjallsvegur lokaður fram eftir kvöldi vegna slyssins. Að sögn lögreglunnar á Akranesi er ekki fullkannað hver tildrög slyssins voru. Þó er ljóst að þrír menn á jafn mörgum bifhjólum voru á leið til vinnu sinnar á Grundartangasvæðinu, en strætisvagninn var á leið til Akraness. Fremsta hjólið lendir á vagninum með fyrrgreindum afleiðingum. Ökumaður hjólsins, sem var annað í röðinni, fellur einnig í götuna en hann sakaði ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert