Sniglarnir, Bifhjólasamtök lýðveldisins, ætla að efna til „keyrslu” á morgun miðvikudag undir yfirskriftinni „Saman í umferðinni". Tilgangur keyrslunnar er að sýna fram á að bifhjól og bifreiðar eigi samleið í umferðinni og minna á að tillitsemi sé lykill að öruggari umferð. Ökumenn bifhjóla séu flestir einnig ökumenn bifreiða sem sýni það að þessir tveir hópar eigi margt sameiginlegt.
Í fréttatilkynningu segir að keyrslunni sé einnig ætlað að minna á þá ábyrgð sem við tökumst á hendur þegar sest er upp á hjólið eða undir stýrið á bifreið. Nauðsynlegt sé að vera vel vakandi, nota öryggisbeltin og aka eftir aðstæðum.
Farið verður frá planinu á KFC í Mosfellsbæ kl. 18.30 og ekið inn að Gljúfrasteini. Þar verður svo snúið við og ekið inn í Mosfellsbæ aftur þar sem keyrslunni lýkur
Til að minna á notkun öryggisbeltanna verða ökumenn bifreiða með sín belti spennt en bifhjólamenn geta sýnt sinn vilja í verki með að spenna um sig hvíta borða sem liggja þvert yfir bringuna eins og bílbelti.