Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-Sif sem nauðlenti í sjó við Straumsvík í gærkvöldi náðist á land í nótt. Var hún dregin til Hafnarfjarðar og tekin á land þar.
Samkvæmt upplýsingum Landhelgisgæslunnar gengu aðgerðir á staðnum vonum framar. Flotholtum var skotið út strax eftir nauðlendinguna til að halda þyrlunni á floti en það tókst ekki sem skyldi og hvolfdi þyrlunni. Eftir það þurftu kafarar að vinna ákveðin sérfræðistörf í sjónum og gekk það vel. Aðgerðum Landhelgisgæslunnar á vettvangi er að ljúka og er málið nú í höndum Rannsóknarnefndar flugslysa.
Fjórir voru við æfingar um borð í þyrlunni er henni var nauðlent og komust þeir allir heilu og höldnu um borð í björgunarbátinn Einar J. Sigurjónsson.
Þyrlan kom til landsins árið 1985. Hún hefur áður lent í óhappi en henni var nauðlent á Snæfellsnesi fyrir rúmum sex árum eftir að hún skemmdist við það að fljúga á láréttan vindstrók.