Ákærum vegna kerfisvillu í netbanka Glitnis vísað frá dómi

Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur vísað sjálfkrafa frá dómi ákæru saksóknara efnahagsbrota gegn fólki sem var ákært fyrir að hafa misnotað aðgang sinn að gjaldeyrisviðskiptakerfi í netbanka Glitnis, með því að nýta sér með kerfisbundnum og sviksamlegum hætti kerfisvillu í gjaldeyrisviðskiptakerfinu, sem var til komin vegna mistaka starfsmanna félagsins við forritun þess sem leiddi til þess að kaup- og sölugengi víxlaðist.

Segir í niðurstöðu héraðsdóms að saksóknara hafi brostið heimild til að gefa út ákæru í máli þessu í eigin nafni. Segir þar að með reglugerð sem dómsmálaráðherra gaf út í desember 2006 og tók gildi þann 1. janúar sl. sé saksóknara efnahagsbrota í raun falið sjálfstætt ákæruvald. Ekki sé veitt heimild til þess í lögreglulögum að stofna embætti sjálfstæðs handhafa ákæruvalds enda eru meginreglur um ákæruvaldið í lögum um meðferð opinberra mála. Er því ekki hjá því komist að vísa málinu sjálfkrafa frá dómi.

Um fjögur mál er að ræða þar sem fjórir viðskiptavinir netbanka Glitnis á Akureyri voru ákærðir fyrir um 30 milljóna króna umboðssvik.

Reglugerð fer út fyrir heimild laga

Í dómsniðurstöðu kemur fram að í 1. mgr. 25. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála segir að með ákæruvald fari ríkissaksóknari og lögreglustjórar, þar á meðal ríkislögreglustjóri. Í 4. mgr. sömu lagagreinar er dómsmálaráðherra fengin heimild til að skipa saksóknara við einstök embætti lögreglustjóra, þar á meðal embætti ríkislögreglustjóra, til að annast saksókn og málflutning samkvæmt lögum þessum í umboði þeirra.

Þann 11. desember 2006 setti dómsmálaráðherra reglugerð um rannsókn og saksókn efnahagsbrota nr. 1050/2006, sem tók gildi 1. janúar 2007.

Í 1. mgr. 1. gr., sbr. 3. gr. reglugerðarinnar er saksóknara efnahagsbrota falið að annast rannsókn á tilgreindum brotum og meðferð þeirra mála fyrir dómstólum. Í 4. mgr. 1. gr. segir að saksóknari efnahagsbrota, sem sé skipaður til starfa hjá ríkislögreglustjóranum samkvæmt heimild í lögum um meðferð opinberra mála, sé í fyrirsvari fyrir rannsóknum efnahagsbrota.

Hann annist ákæruvald ríkislögreglustjórans vegna efnahagsbrota en beri faglega ábyrgð gagnvart ríkissaksóknara. Í 6. mgr. kemur fram að ríkissaksóknari geti gefið fyrirmæli um meðferð einstakra mála hjá saksóknara efnahagsbrota, kveðið á um rannsókn máls, mælt fyrir um framkvæmd rannsóknar og fylgst með henni og í því sambandi er vísað til 5. mgr. 27. gr. laga um meðferð opinberra mála þar sem fjallað er um stöðu ríkissaksóknara gagnvart „öðrum ákærendum“.

Í 1. mgr. 2. gr. framangreindrar reglugerðar er saksóknara efnahagsbrota falið að taka ákvörðun um hvort höfða skuli mál á grundvelli rannsóknar sem hann hefur látið framkvæma. Hann höfði mál í nafni saksóknara efnahagsbrota og flytji þau fyrir héraðsdómi nema ríkissaksóknara beri að höfða málið samkvæmt fyrirmælum laga um meðferð opinberra mála.

Í 7. gr. reglugerðarinnar segir að reglugerðin sé sett með heimild í 3. mgr. 5. gr. og 3. mgr. 8. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, með síðari breytingum.

Af þessu verður ráðið að saksóknara efnahagsbrota sé með framangreindri reglugerð í raun falið sjálfstætt ákæruvald. Ekki verður talið að í tilvitnuðum ákvæðum lögreglulaga felist heimild til að stofna embætti sjálfstæðs handhafa ákæruvalds enda eru meginreglur um ákæruvaldið í lögum um meðferð opinberra mála. Í 1. mgr. 25. gr. laga um meðferð opinberra mála kemur fram hverjir fara með ákæruvaldið. Verður að telja að með ákvæðum umræddrar reglugerðarinnar sé farið út fyrir heimild 4. mgr. 25. gr. laga um meðferð opinberra mála sem heimilar aðeins skipun saksóknara sem annist saksókn og málflutning í umboði lögreglustjóra. Verður saksóknara efnahagsbrota ekki falin sjálfstæð meðferð ákæruvalds með reglugerð að óbreyttum lögum. Brast hann því heimild til að gefa út ákæru í máli þessu í eigin nafni. Er því ekki hjá því komist að vísa málinu sjálfkrafa frá dómi.

Allur sakarkostnaður í málunum var felldur á ríkissjóð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka